Nemi með meiru Ragnheiður Diljá: desember 2006

þriðjudagur, desember 12, 2006

Einbeitingin vanfundin og "ill-haldbær"

Úfff...seinasta prófið eftir, á fimmtudaginn, og ég er að berjast við að halda einbeitingunni! Ég er búin að senda jólakort og skreyta hjá mér fyrir jólin (ef 1 aðventuljós er nóg til að kalla herbergið skreytt!) þannig að ég get ekki gert það í staðinn fyrir að læra. Ég þarf ekki að laga til því þess þarf ekki, það var undankomuleið frá lærdómi í síðustu viku ;) Ég þarf ekki að elda því ég á nóga afganga til að endast mér fram á fimmtudagshádegi fyrir próf...

Þannig að ég verð bara að læra!

Og fara á litlu jólin hjá kórnum mínum í kvöld, það verður fjör :D Ég ætla að koma með vínber til mótvægis öllum sætindunum sem mig grunar að verði á borðum og svo verður viðkoma í Tiger í leiðinni til að finna eitthvað ódýrt og skemmtilegt í pakka...já! Það er sko allt tilheyrandi sem maður man eftir frá því í grunnskóla ;) Gleymdi samt að spyrja hvort maður ætti að koma með kerti...er það ekki hefðin?

Ps: mér er ekkert illa við að fá komment þannig að endilega ekki liggja á þeim ;D

föstudagur, desember 08, 2006

Make-up menningin

Það var núna um daginn að ég fékk 2 eftirfarandi setningar, ásamt fleirum skemmtilegum um muninn á körlum og konum, í pósti:

Karlmenn vakna jafn fallegir og þeir fóru í rúmið.
Konum einhvern veginn hrakar á nóttunni.

Ég hló og hló :D og svo fór ég að hugsa...af hverju ætli hlutirnir hafi þróast þannig að konur í okkar menningu (alla vega yfirgnævandi meirihluti) máli sig en ekki karlmenn (eða alla vega ekki mikill meirihluti)?

Þeir gætu allt eins skellt á sig smá maskara til að undirstrika augun eða sett smá gloss á sig, með eða án glimmers, svona til að sýna smá lit! Er annars nokkur munur á karlmannsaugum/-vörum og kvenmanns-?

Sjálf streittist ég lengi við að byrja að mála mig, nennti ekki að falla í þá gryfju! Ég man sérstaklega hversu kjánalegt mér fannst að heyra konur í þættinum hennar Opruh Winfrey segjast ALLS EKKI geta hugsað sér að fara út úr húsi ómálaðar!! Svo einhvern veginn, einhverra hluta vegna, byrjaði ég á þessari vitleysu sjálf smám saman og nú skil ég þessar konur aðeins betur. Að mála sig er eins og ein af þeim flíkum sem maður klæðir sig í á morgnana...ekki myndir þú fara út úr húsi án þess að fara í nærbuxur (eða hvað?)!

Kannski í framtíðinni munu löng og lokkandi Yves Saint Laurent augnhár einkenna hinn fágaða karlmann og glimmerbleikar Lancome varir bera vott um kátlyndi. Spurning...

Svo er hægt að snúa blaðinu algjörlega við og segja að það séu forréttindi kvenna að geta útfært sig á svo margan mögulegan hátt, allt eftir því í hvernig skapi þær eru og fötum! Karlmenn eru bara alltaf eins :D

Já...þar hafið þið það!

sunnudagur, desember 03, 2006

Niðurtalning

Já, enn og aftur er hún hafin...niðurtalningin til jóla á baksíðu Moggans :) Alltaf jafn vinalegt - samt er svo stutt síðan hún var seinast!

Þrátt fyrir prófalestur hef ég reynt að taka þátt í jólagleðinni og eignaðist ég mitt fyrsta aðventuljós um daginn. Það er hvítt og ódýrt úr Rúmfatalagernum! En ég bara skellti á það fallegum jólalímmiðum sem ég keypti í næstu búð - Nettó - og úr varð hið fallegasta merki um að jólin séu í nánd :) Bið ekki um meira :D

2 dagar í fyrsta próf og ég er ansi róleg, vonandi samt ekki of róleg! Ég, Stephanie og Stína vinkonur mínar höfum aldrei upplifað aðra eins prófatörn! Það má varla á milli sjá hver okkar er rólegri þegar við hittumst í kvöldgöngutúrunum okkar ;)

Tónleikar með kórnum mínum í kvöld og það verður sko gaman eins og alltaf. Það eru 3 í desember og jólalögin fara að verða meir og meir áberandi hjá okkur og smá auka eftirvæntinguna til jóla :)


Ps: Þið verðið að afsaka litaleysið í dag, veit ekkert hvað hefur orðið um alla litina sem hafa verið á boðstólnum áður ??