Nemi með meiru Ragnheiður Diljá: apríl 2007

þriðjudagur, apríl 24, 2007

Prófalestur - nokkur góð ráð!

Hver sagði að það væri ekki hægt að hafa gaman í prófalestri??

Ja...ekki ég alla vega, það er sko víst! Það er hægt að finna sér ýmislegt gaman til að lífga upp á sálina þegar augnlokin fara að síga. Hægt er að sjá nokkur dæmi á myndasíðunni minni og hver veit nema ég gefi ykkur fleiri dæmi á næstu vikum próflestrar og prófatöku ;) Ég tel að þetta sé betra en að skríða upp í rúm í “smá stund” (sem verður yfirleitt “aðeins” lengri) og þetta svínvirkar!

Kveðja,
Ragga ráðagóða :D

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar!

Já, gleðilegt sumar Eva mín :) og gleðilegt sumar kæru lesendur þessa bloggs míns - leyfi afsökunarbeiðni á bloggleysi að fljóta með!

Vissulega tók sumarið vel á móti okkur hér á Akureyri því veðrið er búið að vera yndislegt í allan dag. Pabbi sagði mér að vetur og sumar hefði fryst saman í nótt, eins og það á að gera, og veit það á gott sumar. Mér dettur ekki í hug annað en að trúa honum pabba mínum með það :D Ég skellti mér í sumargöngu um bæinn þveran og endilangan snemma í morgun, undir heiðbláum himni og glampandi sól - bara yndislegt.

Og meira gerði ég í dag...reyndar á kostnað þess að læra en það var þess virði. Ég hitti Jónas sagnfræðing og Kent Lárus frá Nýja Íslandi í Kanada í dag og við keyrðum til Húsavíkur til að hitta kórinn sem við munum "tour-guidast" með í Kanada. Veit ekki hvort ég er búin að segja öllum frá því að ég er að fara til Kanada í sumar, fyrstu dagana með þessum húsvíska kór og til að kynna Snorra verkefnin en svo verð ég á eigin vegum og heimsæki fólkið mitt. Á Húsavík fórum við yfir ferðaplan og komst ég m.a. að því að ég mun verða með smá meiri ábyrgð en ég hélt. Kórinn verður í 2 rútum og verðum ég og Kent til skiptis í þeim að "guida" (kann einhver betra orð? Leiðsögumannast??) á meðan Jónast verður með öðrum kór frá Reykjavík! Það verður reynsla...afar ný :) Og bara gaman að því, gef þeim nokkur byrjenda-asnastrik til að minnast úr ferðinni hehe :D

Jæja, best að fara að halla mér. Þriðji seinasti skóladagurinn á morgun, stór kynning á hópverkefni í næstu viku og svo prófalestur á fullu - sendið mér góða strauma, ekki veitir af :)

fimmtudagur, apríl 05, 2007

Sæl mín kæru,


Hvað segið þið gott? Ég segi allt það fína svona í morgunsárið. Það er gott að vera í páskafríi og geta loksins einbeitt mér að því að lesa skólabækurnar...það hefur verið lítill tími fyrir svoleiðis v/ tímasóknar, verknáms og verkefnavinnu.



En þar sem þetta er nú páskafrí þá er ég nú ekki að streitast við að læra allan daginn heldur tek ég nokkurra klst dugnaðarskorpur og á svo restina af deginum fyrir fjölskylduna mína og vini. Kemst samt því miður ekki suður til að hitta ykkur sem ég á þar :/



Í lestrinum hefur mér þótt einstaklega róandi og einbeitingarbætandi að standa upp og hita mér te, nú er s.k. Yogi Tea í uppáhaldi hjá mér. Gunni bróðir var áður búinn að kynna það fyrir mér þegar hann hitaði sojamjólk og setti svona kanil Yogi te + smá hunang út í...það er rosa jólalegt :) En það er ekki einungis vegna góða bragðsins (mmm) sem mér líkar þetta te heldur fylgir hverjum tepoka fyrir sig fallegur boðskapur. Núna í morgun fékk ég t.d. 'True understanding is found through compassion'. Þetta er mjög nálægt því að vera eitt af grundvallaratriðum hjúkrunar, nema hvað 'compassion' (samúð/meðaumkun) hefur breyst í 'empathy' (samhyggð/hlutttekning) en munurinn er fólginn í því að þú ert færari um að hjálpa einstaklingi sem er að ganga í gegnum erfiða reynslu ef þú sýnir honum samhyggð (sannur skilningur, umhyggja, heldur yfirsýninni) heldur en ef þú sýnir honum samúð (finnur til með honum, umhyggja, en missir svolítið yfirsýnina).


Áður hef ég t.d. fengið 'A relaxed mind is a creative mind' sem er gott að hafa í huga fyrir komandi próftíð og ritgerðarspurningar :)


Mæli með þessu!

...og líka einni hljómsveit sem ég var nýlega kynnt fyrir: Iron and Wine. Mér hefur samt ekki tekist að finna hana í geisladiskabúðum bæjarins...hún virðist vera ófáanleg! En internetið hýsir ýmislegt og ef þið kíkið á myspace.com/ironandwine þá getið þið hlustað á nokkur, þ.á.m. 'Passing Afternoon' sem er mitt uppáhald :)


Jæja, dugnaðarskorpa í Hand- og lyflækningafræði til kl 15 - hafið það gott í páskafríinu :)


Ps: ákvað að leyfa bara hinni færslunni að vera úr lit, ágætis tilbreyting bara...ég virðist hafa misst mig í litagleðinni síðan ég byrjaði að blogga - er farin að lita annað hvert orð liggur við :D