Nemi með meiru Ragnheiður Diljá: júní 2006

föstudagur, júní 30, 2006

Keflavík - Minnesota - Winnipeg

Jæja...nú er barasta komið að því. Brottfarardagurinn er runninn upp – og ég er ekki alveg að kaupa það! En fyrst að dagatalið segir það þá verð ég víst bara að trúa því :)

Ég er búin að eiga tvo virkilega góða daga í Reykjavík. Komst reyndar ekki fyrr en síðdegis á miðvikudag í staðinn fyrir um hádegið eins og ég ætlaði mér, þar sem ég hafði – svo gáfulega – pantað mér 11 flug f r á REYKJAVÍK...hmmm... passaði víst ekki alveg eins og ég og pabbi sáum þegar við komum inn í tóma flugstöðina! :D

Fékk óvænt rosa góðar móttökur á flugvellinum þar sem Inga hans Bigga bóa og strákarnir þeirra, Adam og Vigfús, komu og sóttu mig og áttum við öll góða stund saman á afmælinu hans Vigfúsar áður en þau fóru til Spánar í gær. Biggi keyrði mig svo á kaffi Hljómalind þar sem Gunni bróðir vinnur og gerði ég þar nokkra kaffibolla...það minnti mig á Bláu Könnuna mína ;)

Við Stephanie vinkona eyddum svo gærdeginum saman og fórum m.a. á fyrsta dag útsölu! Ég keypti mér nú ekki mikið, þar sem ég er nú á leiðinní út í úrvalið þar, en ég náði svona aðeins að hita mig upp (get stundum verið pínu sein í gang), liðka kortið til og koma mér í kaupgírinn ;D Aftur á móti hjálpaði ég Stephanie að hætta að skila fötum aftur á slána án þess að máta þau og þannig aðeins að víkka út fatavalssjóndeildarhringinn hjá henni :)

Svo skemmtilega vildi til að Hólmgeir frændi og afmælisbarn og strákarnir hans, Kári og Karl, voru líka að leika sér í borginni og náði ég því að smella kveðjukossi á þá feðga í Kringlunni :)

Í gærkvöldi fór ég svo út að skokka á Sæbrautinni og aðeins út á Seltjarnarnesið – naut kvöldsvalans í botn áður en hitasvækjan tekur við :/ Á Sæbrautinni fékk ég svefngalsa og tók upp á því að hoppa og skoppa á milli steinanna í grjótgarðinum! Ekki kannski það sniðugasta sem maður getur gert þegar maður hefur plön sem gera ekki ráð fyrir gifsi og hækjum!! En gaman var það ;)

Nú er ekki víst hvenær ég kemst í net næst...vonandi fyrr en seinna. Hafið það öll rosa gott þangað til næst :)

mánudagur, júní 26, 2006

Íslenskt sumar


Nú eru síðustu forvöð fyrir mig að njóta íslenska sumarsins áður en ég kveð það, ótrúlegt en satt þá er það alveg hægt núna!

Ég gekk inn Glerárdalinn í gær í alveg hreint yndislegu veðri og um kvöldið skelltum ég og Stína vinkona mín okkur í golf í sveitinni! Það var óóótrúlega gaman, við skildum vel hvernig fólk getur fengið golfbakteríuna þegar það fer að ná að skjóta kúlunni lengra en 5 metra í hverju skoti!! ;) Markmiðið mitt á fyrstu brautunum var að halda kúlunni inni á vellinum - og gekk það nú mis vel - en síðan komst maður í smá golf gír og leyfði þessu bara að flæða og viti menn! Kúlan fór upp frá grasinu, flaug tignarlega í loftinu (m.a.s. nokkra metra) og lenti (NB) inni á teignum aftur!! :D

Hittum líka ansi skemmtilega golfara, sumir voru "aðeins" betri en við og hleyptum við þeim nú fram úr svo þeir yrðu ekki í alla nótt með hringinn sinn! Aðrir voru...jah...ekki alveg hefðbundnir golfarar...aðeins komnir í glas og var leikurinn afar skrautlegur fyrir vikið!! Við Stína höfðum mikið gaman af þeim og endaði kvöldið með því að við tókum seinustu brautina með þeim og hinum tveim sem voru búnir með allan hringinn (fóru s.s. ekki styttri leiðina vegna tímaskorts eins og við og skrautlegu félagarnir). Þetta var mikið fjör :D

Nú eru bara 2 dagar þangað til ég fer til Reykjavíkur og 4 þangað til ég fer til Kanada...styttist óðum maður lifandi! Búin að þrífa herbergið hátt og lágt og þvo þvott þannig að á morgun verður pakkað, fjölskylda og vinir kvaddir, spagettí að hætti pabba sem lokamáltíð að minni ósk ;) og á miðvikudagsmorgun fer ég í hafragraut til afa og ömmu áður en ég fer í flug :)

Setti inn nokkrar myndir ;)

þriðjudagur, júní 13, 2006

Fer að styttast!

Nú fer heldur betur að styttast í að ég haldi á vit ævintýranna þannig að mér datt í hug að skella inn einni færslu og segja ykkur í stuttu máli hvað það er sem ég er að fara að gera.

Í stuttu máli sagt þá sótti ég um að fá að vera þátttakandi í s.k. Snorra West prógrammi sem vinnur að því að styrkja tengslin á milli Vestur-Íslendinga og Íslendinga með því að senda hóp fólks ár hvert milli Kanada og Íslands - og var valin!! ásamt 7 öðrum og er því á leiðinni í 6 vikna ferð til Kanada þann 30. júní :D

Við munum skoða okkur um víðsvegar í Kanada, fara á ströndina, í verslunarmiðstöðvar, útihátíðir, kvikmyndahátíðir, synda í vötnum, verða bitin af moskítóflugum :/ (þær eru víst ansi skæðar, alla vega miðað við það sem einn ferðalangur frá Kanada sagði mér þegar hann kom í kaffi á Bláu Könnuna - hann sagði að strendurnar væru yndislegar í Kanada, en....það væri ekki hægt að njóta þeirra vegna moskítóflugnanna!!!) og margt, margt fleira.

8 fjölskyldur í einhverjum af minni bæjunum (t.d. Gimli) taka hver um sig eitt okkar að sér í 3 vikur og gera eitthvað skemmtilegt með okkur og þar fáum við líka "vinnu" virka daga frá 10-14 á daginn.

Seinustu vikuna tökum við þátt í hátíðarhöldunum sem eru ár hvert í tilefni Íslendingadagsins og þá er víst mikið glens og gaman! :)


Ég ætla að reyna að vera dugleg að segja ykkur frá ferðalaginu og setja inn myndir og ég vil endilega fá comment frá ykkur öllum...þá er svo miklu skemmtilegra að blogga ;)