Nemi með meiru Ragnheiður Diljá: febrúar 2007

sunnudagur, febrúar 18, 2007

Helgi enn á ný...

...og ekki af verri toganum.

Ég á nefnilega tvær litlar rúsínur sem mér þykir svo óskaplega vænt um. Ábyggilega hafa flest ykkar heyrt mig tala um Kidda Kalla og Birtu Rún, sem ég hef passað frá fæðingu, og á ég orðið ansi mikið í þeim. Ég var að passa þau í dag, og gisti hjá þeim í nótt, og erum við búin að hafa það notalegt og gaman saman. Svo kúrði ég hjá þeim í kvöld, þó þau séu búin að læra að fara að sofa ein...bara stenst það ekki ;) Það er svo yndislegt að halda í litlar hendur og heyra hroturnar allt í einu koma...eina stundina eru þau vakandi og svo er eins og slökkt sé á þeim – ótrúlegt alveg :)

Í gærkvöldi átti ég afar skemmtilega stund með Olgu og Láru meðleigjendum mínu. Við ákváðum að eiga stelpukvöld, í fyrsta skiptið frá því að við fluttum inn saman!! og leigðum okkur spólur og höfðum það rosa fínt með kertaljós og Egils Kristal Plús :) Vonandi gerum við eitthvað svoleiðis aftur áður en þær útskrifast og yfirgefa svæðið!

Nóg framundan á morgun. Súperspinningið mitt kl. 11, heimsókn til afa míns og ömmu eftir sturtu og kvöldmatur með pabba mínum. Leiðinlegt hvað ég sé lítið af fólkinu mínu nú orðið, 1 sinni í viku og stundum m.a.s. sjaldnar! Skrítið hvað maður eyðir miklum tíma í skóla og vinnu þegar fjölskyldan, það mikilvægasta og dýrmætasta sem maður á, fær ekki meiri tíma.

~þess vegna verður lítið lært um helgina – stundum bara verður maður að forgangsraða rétt~


Ps: Setti inn myndir frá því á jóladag og gamlársdagskvöld ;)

mánudagur, febrúar 12, 2007

Hæ kæru öllsömul

Maður er enn þá á lífi, bara í smá verknáms dvala!

Næst seinasta vikan að hefjast, og ég er búin að sjá og gera MARGT! Hjúkkusjálfstraustið hækkar og lækkar á víxl...allt eftir því við hvað ég er að fást hverju sinni og hvernig mér gengur við það ;)

Ég er núna á Akureyri á Handlækningadeild en fyrir það var ég 2 vikur fyrir sunnan á Kleppi - og hvað það var mikil upplifun! Þar var allt nýtt fyrir manni og svo miklar pælingar sem fóru í gang að ég er fegin að þurfa að skila 10-15 bls verkefni úr því verknámi um eitthvert einkenni geðsjúkdóms og upplifun mína + lærdóm af veru minni á geðdeild :) Þá fær maður aðeins að pústa.

Á meðan ég var fyrir sunnan náði ég að hitta fjölskyldu og góða vini, mikið var gott að sjá ykkur öll :) - alltaf eru þó einhverjir sem ekki gefst stund til að hitta en næsta heimsókn leysir úr því ;)

Í Reykjavík eignaðist ég 5 pólska strætófélaga á Hlemmi! Þeir voru þar alltaf þegar ég kom, við áttum 10 mínútna mállausa skemmtun og svo fóru þeir 2 mínútum á undan mér. Svo veifuðum við þegar strætóarnir mættust á gatnamótunum á leiðinni á Klepp! Bara gaman og lífgaði upp á drungalega rigningarmorgna (alla 10!) :)

Og já...ég keypti mér langþráðan gítar! Nú ætla ég að læra og ef einhver á skemmtilegar en einfaldar nótur á rafrænu formi má sá hinn sami gjarnan senda mér :)

Því miður tók ég afar fáar myndir í þessari ferð minni en ég set nokkrar inn sem ég tók.

Við heyrumst og hafið það gott :)