Nemi með meiru Ragnheiður Diljá: febrúar 2008

föstudagur, febrúar 29, 2008

Morgunstund gefur gull í mund ;)

Elska svona morgna...

Kannski myndu ekki allir vera sammála því ef þeir hefðu átt svona morgunn eins og ég átti.

En þessi morgunn var svona morgunn sem lætur manni líða eins og klukkan ætti eiginlega að vera meira. Hann byrjaði þannig að ég lét loksins verða af því að endurnýja kynni mín af morgunskokki, fyrstu tvær mínúturnar hugsaði ég náttúrulega "Hvað er ég eiginlega að pæla, maður á auðvitað að vera sofandi uppi í rúmi kl. 6:20 á morgnana...ekki að sjokkera lungun með ísköldu lofti!" en það var fljótt að gleymast þegar ég var orðin vel heit og búin að losa mig við vettlingana og rífa af mér eyrnaskjólið!

Svo náttúrulega fór ég í sturtu. Þessi sturta hefur svona verið smám saman að stíflast síðan í sumar af síða hárinu mínu...og þó það hafi nú styst töluvert þá safnast það nú saman og gefur manni þann lúxus að fá fótabað í leiðinni ;) En núna var þetta aðeins meira en fótabað því það lak beint út á gólf! Þá gat ég nú ekki hundsað stífluna (sem var örugglega eldri en síðan í sumar þegar ég flutti inn) og sótti eina verkfærið sem til er í húsinu sem var sem betur fer akkúrat það sem ég þurfti - skrúfjárn! Fór í hanska, losaði hlífina af niðurfallinu og OJ BARA lyktin og slímið og hárflókinn!! En ég losaði slímhárlubbann og skrúbbaði, meira að segja innan á hlífinni...fékk þokkalega sýklagleraugun á mig.

Næst er það affrysting á ísskápnum...þarf samt eiginlega annað orð...kannski bara ísjakalosun og -brottflutningur!! Það verður í annað skiptið síðan ég flutti inn - getur verið að ísskápurinn sé bilaður??? ;)

En sturtuniðurfallið tek ég bara einu sinni!!!

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Óbein skilaboð

Ég var svona rétt í þessu að spá...

...hvað ætli það merki að heyra nákvæmlega sama geisladisk spilaðan á hæðinni fyrir ofan og ég var að spila í gærkvöldi? Hmmm.....

...það var ekki einu sinni nýr diskur eða það mikið spilaður á útvarpsstöðum núna. Hmmm.....

...ætli það sé verið að segja manni eitthvað?? ;)

laugardagur, febrúar 09, 2008

Merkilegir hlutir gerast enn...

Já...það gerðist heldur betur merkilegur hlutur í dag.

Svo merkilegur að ég mátti til með að skrifa það hér niður og deila því með ykkur lesendum mínum.

Veit nú ekki hve merkilegur hann er á skalanum 1-10, læt ykkur eftir að dæma um það.

En alla vega þá var ég að vinna í dag á geðdeildinni og eins og oft í samræðum við fólk sem maður þekkir ekki vel leiddist talið m.a. að aldri þeirra sem þátttakendur voru í einu af þeim samtölum sem fram fóru milli okkar sem eyddum þessum fína degi saman. Ég segi satt og rétt frá því að ég sé 23 ára og hvað haldið þið að einn sjúklingurinn segi? "Bara 23 ára...en þú ert svo fullorðinsleg"

Já, merkilegt nokk í fyrsta skiptið á minni ævi, held ég að ég megi barasta fullyrða, heldur einhver að ég sé eldri en ég er! Og það var bara mjög skemmtileg tilbreyting þar sem það getur verið þreytandi til lengdar að heyra að ég sé svo ungleg. Sérstaklega þegar maður er í 4 ára háskólanámi og ætlar sér jafnvel að fara að vinna í starfi þar sem fólk þarf oft að treysta manni fyrir lífi sínu...hugsa að sumir séu tortryggnir á það við fyrstu sýn að unglamb eins og ég geti höndlað það, þó að ég hugsi nú að þegar það kynnist mér þá breytist sú skoðun - ekki skal dæma bókina eftir kápunni ;) Ég get nú ímyndað mér að margir unglæknar fái að heyra að fólk vilji tala við alvörulækni, það getur ekki verið skemmtilegt! En líklegast er þetta bara hluti af lífinu og starfsþróuninni. Bara bíta í það súra og láta það ekki á sig fá..hehe...jámm...

En skemmtilegt var þetta!

Annað í fréttum...var að klára 5 vikna verknámið mitt í gær - seinasta verknámstörnin í hjúkrunarnáminu! Nú verður allur kraftur lagður í verknámið og vinnuna, og ýmislegt fleira sem ég ætla mér að rækta eins og familíuna og vini, ítölskunámið (! já, var að byrja í ítölsku), kórinn og framtíðarplön !!!

3 upphrópunarmerki, og ekki einu einasta ofaukið. Það er nefnilega hausverkur út af fyrir sig því ég er eins og lauf í vindi með að taka einhverja ákvörðun. Ég er að hugsa um að sækja bara um vinnu og nám hér og þar og sjá hvað ég fæ - taka svo ákvörðun þegar þar að kemur, hvernig hljómar það? Ég ætla ekki að tala of mikið um möguleikana sem koma til greina því hver veit nema þeir verði allir foknir í veður og vind og nýir teknir við í kollinum á mér í vor!

Hafið það gott mín kæru :)